Jóga á meðgöngu
Treystu, gefðu eftir og taktu á móti!
í jóga á meðgöngu gerum við æfingar fyrir huga, sál og líkama. Í tímunum gerum við öndunaræfingar (Pranayama) sem gott eru að æfa á meðgöngunni og gera í fæðingunni. Við stundum hugleiðslur með möntrusöng sem samstilla og styrkja taugakerfið okkar og þar af leiðandi barnsins líka. Við stundum hugaræfingar og djúpa slökun ásamt því að styrkja líkamann með jógastöðum. Í meðgöngujóga einbeytum við okkur að því að læra á líkamann okkar, hlusta á hann og að tengjast barninu okkar betur.
Það er alveg jafn mikilvægt að styrkja hugann eins og að styrkja líkamann á meðgöngunni og jafnvel enn mikilvægara að fara með sterkan huga inn í fæðinguna. Það eru meiri líkur á að allt gangi betur og ekki þurfi inngrip ef konur fara inn í fæðinguna með ´´Ég get þetta´´ hugarfar í staðinn fyrir neikvætt hugarfar.
Öndunaræfingarnar sem við gerum í meðgöngujóga er einföld leið til að koma inn á við, bæði á meðgöngunni og í fæðingunni. Það hjálpar okkur einnig að ná núvitundarástandi, skýrleika, betra innsæi og hugrekki sem hjálpar okkur svo mikið í fæðingunni. Þegar við öndum djúpt og rólega erum við að færa súrefni og lífsorku í hverja frumu þannig að líkaminn er hlaðinn jákvæðri og heilandi orku sem er svo gott fyrir þig og barnið þitt.
Hugleiðsla og djúp slökun á meðgöngu er mikilvæg til að styrkja huga og sál, einnig til þess að koma jafnvægi á taugakerfið og koma ró á hugsanir. Við eigum auðveldara með að slaka á í fæðingunni ef við æfum slökun á meðgöngunni og hugleiðsla hjálpar til við að finna stað rólegan stað innra með okkur. Bæði hjálpar þetta til við að fæða barnið okkar í vitund (conscious birthing).
Jógastöðurnar í meðgöngujóga eru almennt auðveldar og hugsaðar til þess að styrkja líkamann og styðja við, grindina, bak og grindarbotn o.fl. þegar að barnið stækkar og þyngist.
Á fyrstu vikum meðgöngunnar mæli ég með því að þú hvílir þig vel, stundir hugleiðslu og öndunaræfingar. Gott er að byrja í meðgöngujóga eftir 12- 14 vikur og uppúr en það er aldrei of seint að byrja. Í meðgöngujóga færðu mikilvæg og hjálpleg ráð sem nýtast í fæðingunni og ef þú æfir það á meðgöngunni ertu líklegri til að nýta þér það sem þú lærir í jóganu í fæðingunni. Þú myndir ekki fara í maraþon án þess að æfa þig og það sama má segja um fæðinguna.