Kvennahringir hafa verið til frá örófi alda en hafa svo legið í gleymsku eftir að samfélagið varð línulegra. Líklega byrjuðu þeir í upphafi þegar safnararnir þ.e. konurnar komu saman með matinn sem þær söfnuðu í hring, ræddu málin og sögðu sögur. Við höfum flest ríka þörf fyrir að tjá okkur, hlusta og ræða saman um hluti sem okkur eru hjartfólgin og erum í grunninn félagsverur sem finnst gott að tilheyra og þess vegna eru kvennahringir að verða vinsælir aftur í vestrænum jógaheimi sem er svo yndislegt.
Næsti kvennahringur er fyrir barnshafandi konur og verður þann 23. mars milli 20:40 -21:50. Það kostar ekkert á kvennahringinn en nauðsynlegt er að skrá sig til að vita fjöldann. Skráning á jenny@fadmur.is
Þemað að þessu sinni er: Líðan á meðgöngu!

Kvennahringir er einföld aðferð þar sem við einfaldlega sitjum í hring og spjöllum. Bæði fáum við tækifæri til að tala um það sem okkur liggur á hjarta og að hlusta á hinar konurnar segja frá upplifun þeirra. Við erum ekki endilega að ráðleggja eða stinga upp á einhverju til að leysa ákveðin vandamál heldur getur verið nóg að einhver hlusti bara á það sem við höfum að segja það er ekkert rétt eða rangt í þeim efnum og ekki þarf að líða svona eða hinsegin til að mæta.
Í kvennahringjum hjá Faðmi komum við saman á jafningjagrundvelli, verðandi mæður, nýbakaðar mæður eða mæður með ung börn. Við sitjum í hring, tengjum okkur inn í hringinn og gerum stutta hugleiðslu. Í hverjum hring er ákveðið þema sem við ræðum um t.d. í meðgönguhring getur þemað verið líðan á meðgöngu, stuðningur maka á meðgöngu osfrv. Í kvennahring fyrir nýbakaðar mæður getur umræðuefnið verið lífið með ungabarn, líðan eftir fæðingu eða eitthvað slíkt. Við erum með hlut sem við látum ganga á milli og sá sem er með hlutinn hefur orðið, við hinar sitjum og hlustum á það sem konan með hlutinn segir. Oft skapast miklar umræður og getur verið erfitt að bíða með að fá að tala en þetta er mikil æfing í virkri hlustun og hlustun með hlutlausum huga. Ekki er skilda að tala þó mætt sé í kvennahring, stundum viljum við bara hlusta á aðra og það er líka í góðu lagi. Við tökum svo kannski smá leidda slökun ef tími er eða hugleiðslu í lokin áður en við tengjum okkur út. Jenný jógakennari og eigandi Faðms leyðir hringina.
